Monday, July 11, 2011

Eþíópíuáætlun fyrir báðar vorferðir

Ferðaáætlun til Eþíópíu
Fyrri fer: 3.mars-20.mars 2012
Seinni ferð 31.mars-17.apr 2012

Áætlanir beggja ferða eru eins


1.dagur.
Flogið með Icelandair til London í sídegisflugi. Farið yfir á terminal 3 og flogið með Ethiopian Airlines til Addis Abeba. Þetta er mesta sómaflugfélag og prýðileg þjónusta um borð, kvöldverður og síðan morgunverður þegar við nálgumst áfangastað.

2.dagur
Við komum til Bole alþjóðaflugvallarins í morgunsárið og þar er gengið frá vegabréfsáritunum og síðan keyrt rakleitt á hótelið. Það er ekki löng vegalengd.
Ætla má að menn séu lúnir eftir ferð og vilji leggja sig fram yfir hádegið.
Þá er skoðunarferð um Addis og farið í Þrenningardómkirkjuna sem er einstök í Afríku hvað arkitektúr varðar. Einnig á Merkato sem er stærsti útimarkaður í álfunni.

3. dagur.
Flogið til Bahirdar-ca 45 mínútur. Eftir að við höfum tjekkað inn á hótel og fengið morgunverð er farið að fossum Bláu Nílar. Þar skoðum við okkur um og borðum nestishádegisverð. Seinna um daginn skoðunarferð um Bahirdar sem er afar notalegur bær.

4.dagur.
Eftir morgunverð förum við í siglingu um Tanavatn til að vitja gamalla klaustra á URA eyju og ef til vill komið víðar við. Þetta er hið merkasta klaustur og skrautlegir íkonar prýða það.

5.dagur.
Nú er flogið frá Bahirdar til Lalibela(ca 45 mínútur) og keyrt frá flugvelli æði spotta í fögru landslagi. Eftir að við höfum tjekkað inn skoðum við hinar einstöku ellefu kirkjur sem eru grafnar inn í fjöllin. Þær eru frá 12.öld og margir kalla þær 8. undur veraldar.

6.dagur
Að loknum morgunverði eru skoðaðar þær kirkjur sem við komust ekki yfir að skoða. Síðdegis er verið í rólegheitum á hóteli og/eða menn skoða sig um í Lalibela.
Í flestum bæjanna eru sérstakar litlar verslanir sem kvennasamtökin hafa sett á laggirnar og gaman að kíkja inn þar.

7.dagur
Eftir morgunverð er flogið til Axum(45-50 mínútur) og eftir að við höfum tjekkað inn á hótelinu skoðum við okkur um í Axum.

Þar eru tignarlegir óbeliskar, leifar af kirkju heilagrar Maríu og í grenndinni er klaustur þar sem sagt er að boðorðin tíu séu geymd. Við skoðum leifar af höll drottningarinnar af Saba sem mun hafa átt hallir bæði hér og í Jemen. Einnig lítum við inn á fornleifasafnið og ofl.

8.dagur.
Morgunverður og síðan er flogið frá Axum til Addis Abeba og frjáls tími.

9.dagur.
Morgunverður. Skoðunarferð um Addis, m.a. farið á Þjóðminjasafnið og Fornleifasafnið. Þetta er ósköp auðveldur dagur.


10. dagur.
Morgunverður. Lagt af stað (á jeppum) til Arbaminch til suðurs um Omo dalinn og á leiðinni er farið á Zwayvatnið. Þarna er mikil fugladýrð fyrir áhugamenn um fugla og einnig heimsækjum við ættbálkana sem búa í suðrinu og skreyta sig eftir ákveðnum reglum. Gist þar

11.dagur.
Nú liggur leiðin til Jinka sem er bæði fjölbreytt og fögur. Við komuna þar tjekkum við inn á hótelinu og gistum í Jinka

12. dagur
Morgunverður. Förum við í Magoþjóðgarðinn þar sem Mursiættbálkurinn hefur aðsetur og konur skreyta sig með því að setja disk á neðri vörina. Við borðum nestishádegisverð í þjóðgarðinum og keyrum síðan aftur til Jinka og gistum þar.

13. dagur
Morgunverður. Keyrt til Turmiþorpsins en þar býr Tsemay ættbálkurinn og þar gætum við séð einhvern skrautlegasta markað í Omodalnum. Þar býr Muruleættbálkurinn sem er einnig frægur fyrir líkamsskreytingar sínar.Gistum í Buska Lodge í Turmi

14.dagur
Nú er röðin komin að Karoættbálknum og skoðun í Omodalnum sem á varla nokkurn sinn líka vegna fegurðar í landslagi. Við gistum aftur í Turmi

15.dagur.
Keyrum aftur til Arbaminch og á leiðinni förum við gegnum Konsó en þar voru íslenskir kristniboðar við störf í mörg ár. Konsóættbálkurinn- einkum konurnar þekkjast strax af klæðaburði sínum - og þær hafa einnig getið sér orð fyrir að gera einstaka stallamyndun og rækta þar af kappi, meðan karlar taka því öllu rólega.Við komuna til Arbaminch gistum við þar og borðum

16.dagur
Við keyrum til Addis (förum aðra leið) og á hótelið.
Um kvöldið er kveðjukvöldverður með danssýningu og fleiru skemmtilegu.

17. dagur.
Þessi dagur er frjáls en leiðsögumaður og fararstjóri verða innan seilingar. Mælt er með að menn leggi sig því við förum til flugvallar um kvöldið.Og síðan með Ethiopian Airlines til London um nóttina.

18.dagur.
Við komuna til London færum við okkur af Terminal 3 og á 1 og síðan er nokkurra klst. bið þar til Íslandsvélin fer heim kl 14.

Innifalið í verði

Flug frá Kef-London og áfram til Addis Abeba og til baka
Allt flug innanlands í Eþíópíu
Allir skattar
Gisting í 2ja manna herbergi, morgunverður og kvöldverður
Tveir nestishádegisverðir
Sigling á Tanavatni
Aðgangseyrir að öllum stöðum sem við heimsækjum í ferðinni
Öll keyrsla
Tvær vatnsflöskur á dag
Danssýningar og kaffisiðasýningar
Þjórfé til burðarmanna á hótelum
Þjórfé til staðarleiðsögumanna

Ekki innifalið:
Vegabréfsáritun(líklega um 30 dollarar)
Aukagreiðsla fyrir eins manns herbergi
Þjórfé til aðalleiðsögumanns og bílstjóra
Myndatökugjald, um 1-3 dollarar
Drykkir, áfengir sem óáfengir
Tryggingar eru á ábyrgð hvers og eins